
Frelsi
Frelsi fylgir ábyrgð. Vegna þess að við höfum frelsi til að haga okkur nánast eins og við viljum þurfum við að bera ábyrgð á því sem við gerum. Það er því gerð krafa til okkar um að gera hluti ekki hugsunarlaust.
Hér beinist umræðan að því að úr því við búum yfir frelsi þurfum við að bera ábyrgð á gjörðum okkar og orðum. Við þurfum að vanda okkur í ákvörðunum vegna þess að engin nema við hefur úrslitavald yfir ákvörðunum okkar. Eða hvað?
Annar vinkill á umræðunni er hversu langt frelsi okkar má ganga. Má t.d. segja hvað sem er í krafti málfrelsis? Er það siðferðileg skylda að notfæra sér ekki málfrelsi til að valda öðrum skaða eða ljúga? Á ég að gera eitthvað í því ef ég sé einhvern gera eitthvað af sér, eða slær frelsið skjaldborg í kringum mann? Má ég gagnrýna aðra ef ég er ósammála þeim?
Er t.d. réttlætanlegt af starfsmanni að skerða frelsi þess sem skaðar aðra eða er líklegur til að skaða aðra? Er réttlætanlegt að minnka frelsi barna ef þeim „er ekki treystandi“?

Kveikja
Í Konungi ljónanna hefur Simbi ákveðnar skyldur, en Tímon og Púmba eru mun frjálsari. Þegar Simbi býr í skóginum með þeim er hann jafn frjáls og þeir þangað til að skyldan kallar og hann þarf að snúa til baka í konungsdæmi sitt. Hann áttar sig á því að hann ber ábyrgð á örlögum hinna ljónanna og hefur því skyldu til að laga stöðuna. Hann þarf að gera það.
Er gott að vera alveg frjáls? Er það hægt?
- Finnst ykkur mikilvægt að sinna skyldum sínum?
- Er mikilvægt að gera það sem á að gera?
Eruð þið alveg frjáls?
- Hvers vegna megum við ekki ráða öllu sjálf? Til hvers eru reglur?
- Hverju megið þið ráða alveg sjálf/ur? Hvaða fötum þið klæðist/hvaða mat þið borðið?
- Hverju megið þið ekki ráða? Af hverju?
- Mega börn gera eitthvað sem fullorðnir mega ekki? Hvort myndirðu frekar vilja vera fullorðinn eða barn?
- Hvernig get ég passað að aðrir njóti frelsis?
- Haldið þið að Simbi hafi verið hamingjusamur í skóginum með allt þetta frelsi?
- Haldið þið að Simbi hafi verið hamingjusamur þegar hann var búinn að gera það sem hann bar ábyrgð á?

Þróunarverkefni
Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com