Ósýnileiki

Hvað myndir þú gera ef þú gætir verið ósýnilegur?

eða

Hvers vegna högum við okkur vel?

Hringur Gýgesar

Sagan um Gýges birtist í Ríkinu hans Platóns og segir frá fjárhirði sem rambar á gullhring. Hann kemst að því að þegar hann snýr hringnum inn í lófann sinn verður hann ósýnilegur. Hann nýtir sér hringinn til ódæða og leikslok eru sú að hann tælir drottninguna og vegur konunginn til þess að verða konungur sjálfur. Spurningin sem Platón veltir upp er: Hvernig myndum við haga okkur ef enginn sæi til?

Sagan getur vissulega verið útfærð á óravegu, (t.d. er hægt að sækja innblástur í Hringadróttinssögu eða huliðsskikkju Harry Potters). Hún gæti verið í hversdagslegri mynd eins og “Hvað myndir þú gera ef þú myndir finna pening á göngum skólans eða nammi á jörðinni?” Myndir þú skila peningnum / borða nammið?

Aðalatriðið með sögunni er að hefja umræðu um forsendur þess að við högum okkur á siðferðilegan hátt. Högum við okkur vel vegna þess að aðrir sjá til, vegna þess að við óttumst refsingu eða viljum umbun? Lætur góð hegðun okkur líða vel? Eru aðrar ástæður fyrir góðri hegðun?

Hægt er að krydda söguna að vild t.d. með því að láta sem Gýges hafi byrjað á því að fíflast í vinum sínum, en hægt og bítandi freistast út í verri hegðun, eins og að ræna smámunum, smyglað sér inn í sundlaugina o.s.frv. áður en hann gerir eitthvað alslæmt, eins og að ræna banka eða annað slíkt.

Umræður

 • Var rétt af Gýgesi að nýta sér hringinn til ódæðisverka?
  • Af hverju, af hverju ekki?
 • Hvað mynduð þið gera ef þið gætuð gert ykkur ósýnileg?
  • Ef eitthvað rangt: Hvers vegna myndir þú ekki gera þetta þegar sést til þín?
  • Sleppum við því að gera slæma hluti af því að okkur er refsað fyrir það eða er okkur refsað af því að það er rangt að gera þessa hluti?
 • Hvernig væri það ef allir gætu verið ósýnilegir?
 • Væri hægt að nýta sér slíkan hring til að gera góða hluti?
 • Breytist hegðun ykkar þegar enginn sér til? Hvernig myndi það vera ef það væru öryggismyndavélar í frístundaheimilinu þínu?
 • Má brjóta reglur þegar enginn veit af því?
  • Ef svo er, hvaða reglur? Má eyðileggja hluti? Má ryðjast í röð? Má ræna? Má vera með læti?
 • Líður ykkur vel þegar þið gerið góða hluti? Líður öðrum vel þegar þið komið vel fram við þau?

Klípa

Einar var í matsal með bekknum sínum. Þau höfðu verið svo heppin að fá kleinuhring í eftirrétt, uppáhaldið hans. Honum leið eins og hann gæti borðað heilt fjall af kleinuhringum en því miður var bara einn kleinuhringur á mann, til þess að það væri örugglega nóg fyrir alla. Þegar hann var búinn að sleikja allt súkkulaðið af puttunum skrapp hann fram til að þvo sér um hendur. Þegar hann kom til baka voru hinir krakkarnir og kennarinn farinn aftur upp í stofu. Hann sneri við og ætlaði að fara á eftir þeim, en sá að það voru enn nokkrir kleinuhringir eftir á bakkanum. Hann var aleinn í matsalnum og það sá enginn til hans, kannski myndi ekki saka að fá sér nokkra í viðbót…

Þróunarverkefni

Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com

%d bloggers like this: