
Hvað telst sanngjarnt? Er sanngjarnt að
… allir fá það sama?
… við útdeilum gæðum eftir verðleikum/eiginleikum?
Kveikja 1
Þessi kveikja er byggð á What makes me me? https://www.philosophy-foundation.org/episode-4-what-s-fair
Einu sinni voru þrír krakkar, sem voru að leggja af stað í leiðangur. Einn var stór, einn var handleggsbrotinn (eða einhentur í tilviki lego-kallsins), og ein (kanínan) var minnst. Sú litla sagði að hún væri svo lítil að hún ætti erfitt með að halda á miklu dóti, og fannst að sá stóri ætti að halda á mestum farangrinum. Sá handleggsbrotni sagði að úr því að hann væri handleggsbrotinn ætti hann líka erfitt með að halda á farangrinum. En sá stóri sagði að hann ætti ekki að þurfa að halda á miklu dóti, þar sem að hann kom bara með örlítinn farangur með sér.
Hvað er sanngjarnast hér? Hvernig eiga þau að deila út farangrinum? Er sanngjarnt að sá sem getur haldið á mestu haldi á meiru en hinir?
Fyrr en varir voru þau búin að rífast svo lengi að þau voru orðin glorsoltin. Þau taka því upp nestið sitt (legó-kubbarnir). Sá stóri með sitt litla nesti, sá handleggsbrotni með þónokkuð af nesti og sú litla með kappnóg af nesti. Sá stóri er orðinn mjög svangur (sérstaklega eftir langa rifrildið) og biður um mat hjá þeirri litlu, hann þarf svo mikla orku fyrir stóra líkamann sinn. Sú litla vill gjarnan gera það sem er sanngjarnast. Hvað finnst ykkur að hún eigi að gera? Og af hverju?
1. Hún deilir ekki með honum matnum…
- af því að hann hjálpaði henni ekki áðan (Það væri því ekki sanngjarnt)
- af því að hann hefði bara átt að koma með meiri mat (Hver ber ábyrgð á sjálfum sér)
- af því að hún er í fýlu út í hann (Er það nógu góð ástæða?)
2a. Hún deilir með honum matnum, án þess að vilja neitt í staðinn, þó að hann hafi ekki hjálpað henni áðan.
- Rökin gætu verið að það er sanngjarnt að allir fái jafnt.
- Ástæðan gæti verið að sú litla vill vera fyrirmynd.
- Rökin gætu verið einfaldlega þau að hann er svengstur af þeim öllum, og þarf mest að borða (Sannigirni eftir þörfum).
2b. Hún deilir með honum matnum en bara ef að hann heldur á dótinu hennar fyrir hana.
- Er sanngjarnt að deila e-u með e-m bara til þess að fá hann til að gera það sem þú vilt?
- Gerið þið þetta stundum sjálf? „Ég skal gera þetta fyrir þig, en þá verður þú að gera þetta fyrir mig“
Haldið þið að ákvörðun stelpunnar hafi áhrif á hvað stóri strákurinn gerir næst þegar þau lenda í svipuðum aðstæðum?
Kveikja 2
Þessi kveikja er byggð á broti úr Lisa (1983) eftir Matthew Lipman.
Tveir vinir, Jón og Kalli fara í pokémon-klúbb. Í klúbbnum á að skiptast á pokémon-spjöldum, þannig að ef einhver lætur þig fá pokémon-spjald, áttu að láta hann fá annað í staðinn. Eftir klúbbinn fara þeir að fá sér ís, en Kalli er ekki með pening. Jón býðst til að lána honum, og Kalli lofar að borga honum til baka seinna. Á leiðinni út bregður einn bekkjarfélagi þeirra fyrir Kalla fæti. Kalli hrasar og ísinn hans fellur í gólfið. Við þetta reiðist Kalli og slær ís bekkjarfélagans úr hendinni hans og í gólfið og hleypur svo í burtu. Þegar þeir hafa komið sér nógu langt í burtu setjast þeir niður til að ná andanum. Jóni fannst það sem Kalli hafði gert ekki alveg nógu gott, en vissi þó ekki alveg af hverju. Hann spurði Kalla: „Hvers vegna hentirðu ísnum hans í gólfið?“
„Ég gat ekki leyft honum að komast upp með þetta, hann þurfti ekki að fella mig! …Ég þurfti heldur ekki að henda ísnum hans í gólfið, en mér fannst það sanngjarnt, han átti það skilið“.
Jón var ekki alveg sammála. „Í frímerkjaklúbbnum á að skiptast á hlutum. Ef þú færð frímerki áttu að gefa frímerki til baka, alveg eins og þegar einhver lánar mér pening. En það er ekki alveg eins og þegar einhver gerir þér eitthvað slæmt“.
„En ég varð að hefna mín! Ég gat ekki leyft honum að komast upp með þetta! Ég varð að jafna þetta út.“
Hvort eruð þið sammála Jóni eða Kalla?
- Er alltaf sanngjarnt að hefna sín („til að jafna þetta út?“)
- Hvað er hægt að gera annað en að hefna sín?
- Er hægt að gjalda illt með góðu?
- Er einhvern tíman í lagi að slá á móti?
- Hvað gerist ef báðir aðilar telja það alltaf í lagi að hefna sín? Verður endalaus hringavitleysa af hefndum?
- Er munur á því að hefna sín og
- skiptast á e-u
- skila því sem var fengið að láni
- gera e-m greiða
- gera e-m greiða á móti

Stuttar kveikjur
Kveikja 3: Einu sinni kom kennari inn í stofuna og sagðist ætla að gefa öllum nammi. Hann ætlaði að deila öllu namminu jafnt svo allir fengju jafn mikið. Eini vandinn var að kennarinn var að útdeila litlum bita af mjólkursúkkulaði, en einhverjir nemendur voru með laktósaóþol og gátu ekki gætt sér á súkkulaðinu.
Er ósanngjarnt að þeir nemendur fá ekkert nammi? Ættu þeir að fá eitthvað annað eins og sleikjó? Myndu aðrir nemendur kvarta þá yfir því að sumir fá sleikjó en aðrir „bara“ súkkulaði?
Kveikja 4: Einu sinni kom kennari inn í stofuna og sagðist ætla að gefa öllum nemendum nammi sem höguðu sér illa!
Er það sanngjarnt? Af hverju er það ekki sanngjarnt? Ætti kennarinn bara að gefa þeim nammi sem haga sér vel? Eigum við þess vegna að haga okkur vel, af því að þá fáum við „nammi“ / aðra umbun?
Kveikja 5: Skólabekkur var að reyna að ákveða hvaða leikur ætti að vera í íþróttum. Það voru ekki allir sammála svo kennarinn ákvað að efna til kosninga. Meirihluti bekkjarins æfði fótbolta svo að fótbolti varð fyrir valinu. Nokkrir nemendur kvörtuðu þá í kennaranum yfir því að fótbolti yrði nánast alltaf fyrir valinu og fannst það óréttlátt þar sem að þau vildu fara í aðra leiki líka. Hvað finnst ykkur?
Aðstæður sem þessar eru ansi algengar, þar sem meirihlutinn á að ráða. En ekki er það alltaf sanngjarnt, t.d. þegar minnihlutinn tapar “verulega” á því.
(Hægt er að láta þessa kveikju snúast um val á bíómynd eða val á einhverju matarkyns, en aðalatriðið er að það gildi um alla viðkomandi)
- Er munur á því ef kosning fer 9-8 og 16-1?
- Þurfum við að taka tillit til þess ef einn nemandi getur ekki tekið þátt í leiknum/mun hljóta skaða af?
Þróunarverkefni
Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com