Starfsfólk og fagmennska


Starfsfólk og fagmennska


„Leiðarljós frístundaheimilanna er að hver einstaklingur fái að njóta sín og þroskist í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu. Lögð er áhersla á að þroska félagslega færni í samskiptum í gegnum leik og starf sem og virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu. Frístundaheimilin leitast við að nota lýðræðislega starfshætti, efla hæfni barnanna til að móta sér sjálfstæðar skoðanir og hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður.”

Á vef Reykjavíkurborgar: reykjavik.is/fristundaheimili

Frístund og tækifærin

Frístund er vettvangur þar sem börn eiga að hafa frelsi til þess að sinna áhugamálum sínum, leika tiltölulega lausum hala og prófa sig áfram í samfélagi við jafningja sína, laus við hinar formlegu námskröfur hefðbundins skólastarfs. Á frístundaheimilum eru vanalega mörg börn þar sem leikur er í fyrirrúmi og dagurinn getur verið fljótur að líða þegar mikið er um að vera. Það mætti því ætla að vandasamt sé að koma siðfræði inn í hið óformlega nám sem á sér stað á frístundaheimilum vegna þess að ekki gefst endilega nægur tími í heimspekilegar vangaveltur þegar dagurinn á að snúast um leiki og „frí“. En þvert á móti eru tækifærin mýmörg, enda er nám ekki einskorðað við kennslustofur.[2] Á fyrstu árum grunnskólagöngu er leikþörfin vissulega mikil en hin „barnslega forvitni“ er óþrjótandi og erum við eflaust sjaldan eins heimspekilega þenkjandi og á bernskuárum okkar.

Til þess að hefta ekki þennan þekkingarþorsta verður starfsfólkið að vera vakandi fyrir tækifærunum og grípa þau þegar þau gefast. Börn spyrja ekki endilega beint út eða orða hugsanir sínar skýrt, og starfsfólk þarf því raunverulega að hlusta til þess að átta sig á þeim vangaveltum sem geta legið hugsunum að baki og draga þær fram. Djúpar og mikilvægar samræður geta átt sér stað yfir perlum, litabók, á sögustund eða vegna ósættis á fótboltavellinum. Til þess að stuðla að siðferðilegri yfirvegun, dómgreind og hæfni til að ígrunda og rökræða um það sem skiptir máli verður að gera siðfræði að daglegu fyrirbæri. Markmiðið er siðfræðilegt frístundastarf byggt á lýðræðislegum grunni þar sem börnin öðlast siðferðilega yfirvegun sem gerir þau betur í stakk búin til þess að kljást við hinn siðferðilega veruleika á eigin forsendum.

Starfsfólkið og viðhorfið

Grundvöllur þess að stunda heimspeki með börnum er að starfsfólk tileinki sér það viðhorf að börn séu fær um að ræða á heimspekilegan hátt en skortur á slíku viðhorfi heftir framgang þessara markmiða. Til þess að stunda heimspeki er óþarfi að þekkja sögu hennar eða helstu kenningar, en ástundun heimspeki er á færi hvers sem er.[3] Börnum er náttúrulegt að spyrja heimspekilegra spurninga, reyna að átta sig á heiminum og eigin stöðu í honum. Það er lítið mál að fá börn til þess að undrast og spyrja spurninga enda kemur það náttúrulega. En áskorun starfsfólks fellst í því að halda athygli á afmörkuðu efni, rýna í efnið og kafa dýpra en yfirborðið. Það kallar á mikla einbeitingu, en með því að notast við kveikjur á borð við sögur eða hugsunartilraunir er hægt að setja umræðuefnið í skýrt form og gerir börnum auðveldara um vik að kljást við flóknar óhlutbundnar spurningar (sjá samverustundir, leikir og fleiri kveikjur).

Það er skylda okkar sem koma að menntun og uppeldi barna að veita þeim þau tól og tæki sem þau þurfa til að fóta sig í veruleikanum. Skyldan fellst í því að styðja við þær heimspekilegu og siðferðilegu vangaveltur og ágreininga sem verða á vegi þeirra. („Hvers vegna má ég ekki gera eitthvað rangt, þegar ég hef séð aðra gera það og komast upp með það?“ (siðfræðileg spurning), „Hvernig veistu?“ (þekkingarfræðileg spurning), „Hvað gerist eftir dauðann?“ (frumspekileg spurning)). Þessar spurningar og forvitnin sem getur þær eru afar mikilvægar og okkur ber að taka mark á þeim. Með þessum spurningum er verið að leitast eftir svörum sem gefa lífinu merkingu. Hvað er? Hvað get ég vitað? Hvað ber mér að gera? Hvernig virkar þetta allt saman?

Að þora að vera ósammála

Heimspekileg samræða fellst í því að æfa sig í að hugsa, átta sig á eigin hugsunum og kljást við hugtök og hugmyndir í samræðu við aðra. Heimspeki krefst þolinmæði, þrautseigju og hugrekkis. Í þeirri heimspeki, sem snýst að mestu um að eiga samræður um flókin mál og eigin skoðanir, getum við komið upp um okkur og vankanta okkar. Það getur verið erfitt að hafa ekki rétt fyrir sér og enn erfiðara getur það verið þegar ekkert svar er rétt! Við þurfum að þora að vera ósammála, þola þegar aðrir eru manni ósammála og hafa hugrekki til að bera til að mögulega segja skilið við eigin skoðanir á kostnað nýrra skoðana.

Sömuleiðis getur okkur fullorðna fólkinu þótt erfitt að kljást við spurningar sem hafa ekki eitt rétt svar, sér í lagi ef maður hefur ekki gefið þeim gaum sjálfur. Þegar börn varpa slíkum spurningum til okkar gætum við fundið til vanmáttar okkar og jafnvel skammast okkar fyrir að geta ekki veitt börnunum rétta svarið svo við förum undan í flæmingi. Annað eins er upp á teningnum í skólakerfinu þar sem markmiðið er að skrifa hið eina rétta svar á prófið. En ef við bregðumst við þessum spurningum með því að kasta þeim til hliðar sendum við þau skilaboð að þessar spurningar skipta ekki máli, og börn læra það að hætta að velta slíkum hlutum fyrir sér. Ef starfsfólk leggur sig fram við að gera heimspekikennsluna áhugaverða og við sjáum gildi hennar sjálf þá er mun auðveldara að rækta með nemendum vilja til þess að spyrja krefjandi spurninga sem oftar en ekki hafa ýmsa kosti í för með sér.[4]

Starfsfólk sem fyrirmyndir

Það fellst mikil ábyrgð í því að kenna börnum. Markmið okkar hlýtur að vera farsælt líf og dygðugt líferni en þá þurfa börnin að hafa sterkar fyrirmyndir. Í raun er þetta gríðarlega erfitt og ábyrgðarmikið starf. Í frístundastarfi erum við saman mest allan daginn í nánu samstarfi og hvernig við bregðumst við ósætti eða erfiði fer ekki framhjá börnunum og ákveðin menning getur skapast innan frístundaheimila sem getur grafið undan markmiðunum.

Þess vegna er mikilvægt að starfsfólk rækta eigin siðferðilega hugsun en í menntastefnu Reykjavíkurborgar er stefnt að því að í skóla- og frístundastarfi starfi „framsækið starfsfólk sem rýnir eigin starfsaðferðir“.[5] Börn fylgjast vel með umhverfi sínu, við erum oft þeirra fyrirmyndir og þau tileinka sér þá hegðun sem við sýnum af okkur. Því er mjög mikilvægt að leiða hugann að eigin hegðun, hvort við séum t.a.m. heiðarleg og sanngjörn og komum fram við aðra og okkur sjálf af virðingu og tillitsemi.

Mikilvægt er að starfsfólkið sýni gott fordæmi og takist á við ágreiningsmál af opnum hug. Starfsfólk þarf að vera reiðubúið að hlíta rökum og sýna réttsýni fremur en að nýta sér sífellt þá valdastöðu sem í stöðu hins fullorðna fellst. Það getur t.a.m. verið freistandi að taka óúthugsaða afstöðu og beita valdi sínu til að útkljá hávaðarifrildi, en þó svo að slík afstaða sé kannski ágætis skyndilausn til að koma í veg fyrir meiri skaða dugar hún skammt og tryggir ekki velferð barnanna. Þó svo að búið sé að losa sig við ágreininginn er hann mögulega ekki leystur. Slíkt getur jafnvel orðið til þess að starfsmaðurinn stendur eftir rúinn trausti barnanna. Við sýnum auðmýkt með því að viðurkenna eigin vankanta og mistök og áréttum að okkar skoðanir og ákvarðanir eru ekki endilega alltaf réttar.

Bækur og sögur geta nýst vel til að sýna dygðir og kveikja umræður um heimspeki, og eru vel til þess fallnar að fanga athyglina.[6] En við getum sjálf sýnt af okkur eftirsóknarverða hegðun nánast daglega: við þurfum t.d. að sýna þolinmæði þegar við bíðum eftir strætó, þrautseigju þegar við förum í langa göngu, skyldurækni þegar við þurfum að ganga frá eftir okkur og tillitsemi við aðra í leik. Tækifærin eru mýmörg og spurningin er því ekki hvort tækifæri til siðferðismenntunar eru til staðar heldur hvernig þau eru nýtt. [7]

Menntun með siðferðilegt inntak

Siðferðismenntun er óformleg menntun sem lærist best af eigin rammleik. Það er auðvitað hægt að lesa um það að mikilvægt sé að vera góður við náungann og að nauðsynlegt sé að bera skynbragð á hvar eigið frelsi endar og annarra byrjar, en mun árángursríkara að kynnast slíkum sannindum af eigin skinni. Í frístund gefst tækifæri til þess að kynnast þessum veruleika og ber starfsfólki að aðstoða við ágreininga og skýra hvernig þessi veruleiki virkar. Í slíkri kennslu þurfum við að vera meðvituð um að feta milliveg siðamótunar og kennslu sem er hlutlaus um siðferðileg gildi. Aðalatriðið er að stuðla að sjálfstæðri hugsun, en ekki að innræta nemendum ákveðið sjónarmið eða eiginleika sem viðtekin eru af okkur persónulega eða samfélaginu í heild.

Markmið okkar er að efla gagnrýna hugsun en gagnrýni þarf ekki að vera neikvæð. Við viljum að börnin þjálfist í að sjá í gegnum hlutina og átta sig á þeim rökum sem liggja skipunum, boðum, bönnum og reglum almennt að baki þannig að þau taki sjálfstæðar ákvarðanir og hafi hæfni til að leysa úr ágreiningum og betrumbæta eigið líf, í sátt og samlyndi við aðra.

„Hugarfar gagnrýninnar hugsunar er í raun siðferðileg afstaða til þess hvernig hugsað er og um hvað er hugsað og sömuleiðis birtist þessi siðferðilega af­staða í því sambandi sem kennari myndar við nemanda sinn.“[8]

„Nám í siðfræði er ekki trygging fyrir því að fólk breyti siðferðilega rétt. En það skapar forsendur þess að fólk geti skilið og rætt réttlætismál sem brenna á samfélaginu. Lestir okkar og brenglað gildismat eiga oft þátt í að skapa ranglæti sem er óþolandi í mannlegu samfélagi. Samviska okkar og siðferðiskennd duga oft ekki til að greina kerfisbundna spillingu sem kann að leika samfélag okkar grátt án þess að við fáum rönd við reist. Gegn siðferðisböli af því tagi er ekkert ráð nema siðvit og gagnrýnin hugsun. Markmið siðfræðinnar er að efla dómgreind hvers og eins svo að við getum, hvert fyrir sig og öll saman, unnið að því að bæta samskipti okkar og samfélag“.[9]

Tilvísanir

[1] Á vef Reykjavíkurborgar: reykjavik.is/fristundaheimili

[2] Á vef Reykjavíkurborgar: reykjavik.is/fristundastarf: „Frítíminn er í nútímaþjóðfélagi góður vettvangur fyrir uppeldisstarf þar sem áhersla er lögð á aukinn þroska og færni með fjölbreyttum viðfangsefnum og reynslunámi. Í frístundastarfi er lögð áhersla á að vinna með sjálfsmynd, umhyggju, félagsfærni og virkni og þátttöku.“

[3] Róbert Jack. (2011). „Barnaheimspeki er rannsókn á möguleikum“. Róbert Jack ræðir við Hein Pálsson og Brynhildi Sigurðardóttur. Hugur, 22, bls. 8-28.

[4] Sýnt hefur verið fram á að þjálfun í samræðuheimspeki skili sér á öðrum sviðum náms (sjá Jórunn Elídóttir og Sólveig Zophoníasdóttir (2019). „…mér má finnast öðruvísi…“ Hugleikur – samræður til náms í leikskóla. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sótt af http://netla.hi.is/serrit/2019/menntun_barna_leik_grunn/05.pdf &
TEDxOverlake – Dr. Sara Goering – Philosophy for Kids: Sparking a Love of Learning: https://www.youtube.com/watch?v=7DLzXAjscXk; Stanford Encyclopedia of Philosophy, Philosophy for Children, https://plato.stanford.edu/entries/children/)

[5] Látum draumana rætast, Menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030.

[6] Sjá heimspekistofnanir á borð við Jubilee Center, Sapere, Philosophy Foundation.

[7] Kolbrún Pálsdóttir. “Á óformlegt nám erindi inn í skóla? Um mikilvægi siðferðis- og skapgerðarmenntunar.” Fyrirlestur frá ráðstefnu Geðshræringar, skapgerð, sjálf og frelsi. https://open.spotify.com/episode/1hx51PBbthL0muJgwB7MQz

[8] Guðmundur Heiðar Frímannsson. Hugarfar gagnrýninnar hugsunar. Hugur, 22(1), 119-134. Sótt 22. október 2020 af https://timarit.is/gegnir/001173037

[9] Páll Skúlason. (2009). Allir þurfa að læra siðfræði. Stúdentablaðið, 85(3), 31–31.

Þróunarverkefni

Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com

%d bloggers like this: