Um verkefnið


Um verkefnið


Þróunarverkefni

Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Þannig læra börnin að skilja þær reglur, boð og bönn sem í honum felast og það gerir þeim kleift að líta gagnrýnum augum á eigið líf. Hér birtist bæði rökstuðningur fyrir siðfræði í frístund og efni ætlað þeim tilgangi. Þótt efnið takið mið af frístundastarfi fyrir 1. og 2. bekk ætti það einnig að geta nýst fyrir eldri aldurshópa, annað tómstundastarf, inn í skólastofunni eða fyrir foreldra og forráðamenn.

Veruleikinn getur virst illskiljanlegur á uppvaxtarárum og erfitt getur reynst að feta sig í flóknu landslagi fullu af boðum og bönnum sem stundum stangast á. En með því að leitast við að rýna skipulega í óreiðuna, með því að velta upp siðferðilegum klemmum og mismunandi siðfræðikenningum, æfa okkur í að hugsa og þekkja eigin huga viljum við auka umræðuna um siðferðið almennt og stuðla að hæfni til að leysa úr flækjum. Til þess að leysa siðferðilegan ágreining og taka siðferðilegar ákvarðanir er mikilvægt að hafa ígrundað siðfræði og þekkja grunngildi siðferðisins: siðaboðin, verðmætin og dygðirnar sem skoðanir og ákvarðanir manns taka mið af. Við viljum því stuðla að samræðu við börnin um siðferðileg gildi á borð við hamingju, frelsi, vináttu og sanngirni og setja í samhengi við daglegt líf.

Með ígrundun um það sem skiptir börnin raunverulegu máli og þjálfun í því að rökræða um siðferðileg gildi eykst siðferðileg yfirvegun þeirra í takt við grundvallarþekkingu á samfélaginu og læsi á reglum þess – og býr þau undir þátttöku í samfélagi þar sem taka þarf tillit til annarra. Með eflingu gagnrýninnar hugsunar eykst sjálfstæði og sjálfsöryggi barnanna. Þau munu vera betur í stakk búin til þess að skilja rök og mynda sér sjálfstæðar skoðanir. Styrkleikarnir sem við viljum styrkja eru meðal annars víðsýni, sjálfstæði í hugsun, umburðarlyndi, hæfni í að skilja rök og mynda sér skoðanir.

Verkefnið styður við meginmarkið menntastefnu Reykjavíkurborgar: félagsfærni, þar sem verkefnið snýr að félagsmótun og beinir athygli barnanna m.a. að því hvernig koma eigi fram við aðra; sjálfseflingu, þar sem við viljum leggja grunn að sterkri sjálfsmynd sem felst í ábyrgum siðferðilegum ákvörðunum og samskiptahæfni, en hún mun styrkjast með skýrari heimsmynd; læsi, en með auknum skilningi á hinni siðferðilegu hlið lífsins eykst skilningur á umhverfinu og veruleikanum í heild sinni; sköpun, en skapandi hugsun er gagnrýnin hugsun og „sköpun nær flugi þar sem… spurningar eru opnar, lausnir margar… “; heilbrigði, þá helst andleg og félagsleg vellíðan.[1]

Hugmyndafræðin – 2 grunnhugmyndir

Að baki verkefninu liggja tvær grunnhugmyndir: Önnur þeirra er sú að siðferði sé veruleiki eins og Páll Skúlason komst að orði. Við lifum og hrærumst í þessum siðferðilega veruleika þar sem skyldur, réttindi, hlutverk, langanir og skoðanir geta stangast á og jafnvel valdið skaða. Hin grunnhugmyndin er sú að siðferðilegar skoðanir séu ekki einkamál. Siðferðileg afstaða okkar hefur oft áhrif á ákvarðanir okkar, og úr því að afstaðan mótast af umhverfinu sem við hrærumst í þurfum við því að hjálpast að við að rækta  siðferði sem gætir hagsmuna okkar allra. Þar með erum við krafin um að stunda siðfræðilega rökræðu og laga það sem þarf, og enn fremur að líta í eigin barm og beita gagnrýninni hugsun á okkar eigin skoðanir, ákvarðanir og breytni.

Siðferðilega rétt breytni er sú sem er studd hinum bestu rökum.[2] Stundum verðum við fyrir því að veruleikinn passar ekki við okkar eigin sjónarmið, eða samræmist illa sjónarmiðum annarra. Þá þarf að athuga hvort einhverju sé ábótavant í okkar eigin siðferði eða hvort siðferði annarra sé ámælisvert. Til þess að geta gert það þarf að setja upp „siðfræðigleraugun“, en siðfræðin rannsakar siðferðið á gagnrýninn hátt og ýmist lýsir eða lagfærir þar sem við á og getur komið að gagni þegar leysa þarf úr ágreiningsmálum. Við nýtum okkur samræðuna til þess að nálgast þessi markmið, en í henni koma fram ólík sjónarhorn. Við leitumst við að skapa öruggt umhverfi þar sem við vinnum saman að því að leiða mál til lykta og fara í saumana á veruleikanum.

Þjálfun í siðfræðilegri rökhugsun er ekki nægjanleg forsenda siðlegrar breytni enda getur sá sem þekkir „lögmál“ siðferðisins beitt klækjum til að fá sínu fram á ósiðlegan hátt. En hún getur orðið til þess að þjálfa þann eiginleika að hugsa gagnrýnið: að koma auga á rökvillur, átta sig á forsendum, tengslum orsaka og afleiðinga, og gildum og verðmætum sem geta stuðlað að góðu lífi. Með það að marki að auka veg barna í átt að farsælu lífi með „siðfræðigleraugun“ í vasanum viljum við veita þeim gott veganesti út í lífið. Siðferðisþroski er nauðsynlegur hverjum einstaklingi í lýðræðissamfélagi og teljum við því nauðsynlegt að nýta hið kjörna tækifæri sem frístundastarfsfólki býðst, þegar börnin eru að stíga sín fyrstu skref í slíku samfélagi, til þess að leggja grunn að siðferðilegri yfirvegun.

Þörfin

Heimspeki með börnum á sér langa sögu og hefur til að mynda þróast  í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hér á landi hafa margir heimspekingar beitt sér fyrir því að koma heimspeki inn í skólastarf, í kjölfar bankahrunsins var kallað eftir siðvæðingu og eflingu gagnrýninnar hugsunar [3] og bent hefur verið á náin tengsl gagnrýninnar og siðlegrar hugsunar.[4]

Þessar raddir hafa náð eyrum Alþingis [5] og í aðalnámskrá grunnskóla er minnst á heimspeki undir hatti samfélagsgreina í viðmiðunarstundakrá. Í aðalnámskránni er kveðið á um kennslu í „heimspeki ásamt siðfræði“, en markmið þeirra er að „nemendur tileinki sér réttsýni, gildismat og ábyrgð, sem meðal annars byggir á hæfni til þess að setja sig í spor annarra og hæfni til þess að sjá fyrir afleiðingar gerða sinna fyrir eigin hag, umhverfi og þjóðfélagið í heild.“ Samfélagsgreinum „er ætlað að gera nemendum kleift að nálgast samfélagsleg og siðferðileg álitamál með hjálp samræðunnar og láta afstöðu sína mótast af rökum.“ (bls. 195). Strax við lok 4. bekkjar á nemandi að geta „tjáð hugsanir sínar, skoðanir og þekkingu á viðeigandi hátt, ásamt því að geta hlustað eftir upplýsingum og rökum í samræðum.“ Undir þáttum skapandi og gagnrýninnar hugsunar skal nemandinn geta „greint milli staðreynda og skoðana, og endurskoðað úrlausn viðfangsefna út frá mismunandi sjónarhornum á skapandi hátt“ (bls. 88).[6] Þó heimspeki hafi lætt sér inn í aðalnámskrá grunnskóla og leikskóla er fagið ekki skylda og svo virðist sem heimspeki sé „kennd að frumkvæði einstakra kennara og skólastjórnenda“.[7]

Þær hugmyndir sem koma hér fram um gildi samræðu og viðleitnin til að stuðla að sjálfstæðri og ábyrgri hugsun endurspegla kröfuna um siðfræði og gagnrýna hugsun í menntakerfinu. Kallinu hefur verið svarað að einhverju leyti, t.d. í leikskólum[8] en markmið verkefnisins sem hér birtist er að auka veg heimspekinnar innan frístundarstarfs.

Hvers vegna frístund?

Einn ötullasti talsmaður heimspeki í frístundastarfi er Kolbrún Pálsdóttir. Hún telur að óformlegt reynslunám þar sem nemandi tengir við, hefur áhuga og stjórn á viðfangsefnin sínu falli vel að ramma frístundaumhverfisins. Óformlegt nám er ef til vill betur til þess fallið að efla siðferðilega dómgreind en formlegt nám en óformlegt nám er í stuttu máli það nám sem viðkemur félagsþroska, siðferðisþroska og skapgerðarmenntun, er ekki bóklegt fag, og illmælanlegt en „þættir eins og sjálfsmynd, sjálfstæði, ábyrgð, og hugmyndaauðgi verða seint mældir með verkfærum formlegs náms“.[9]

Á frístundaheimilum fer fram mikilvægt starf þar sem börn hafa aukið frelsi til að velja í hvað þau verja tíma sínum, þau þjálfa félagsfærni sína og geta sinnt tómstundum sínum, sem er ekki síður mikilvægt en hið formlega nám sem fram fer á skólatíma. Frístundaheimili eru tilvalinn vettvangur til þess að eiga samræður um siðferðið og æfa sig í samskiptum en í frístundastarfi á sér stað siðferðismótun hvort sem hlúð er að henni eða ekki. Við viljum því að þeirri samræðu sé gefinn gaumur og skapa öruggt umhverfi þar sem börnin fá frelsi til að tjá sig og upplifa það að hlustað sé á þau og mark tekið á skoðunum þeirra. Í slíku samræðusamfélagi gefst tækifæri til að þjálfa samskiptahæfni og siðferðilega yfirvegun og dómgreind. Þar fá börnin tækifæri til að vega og meta skoðanir sínar í umhverfi þar sem fólk þorir að vera hvert öðru ósammála. Í samræðu þarf að hlusta af athygli, orða hlutina skýrt og hafa hemil á tilfinningum sínum. Það getur verið erfitt að vera ósammála einhverjum en samt haldið umræðunni málefnalegri.

Í doktorsritgerð Kolbrúnar kemur fram að starfsfólki í frístundastarfi „fannst miklu skipta að efla góða samskiptahætti og félagslega færni barnanna, og skapa þannig samfélag sem einkenndist af umhyggju, vináttu og virðingu fyrir öðrum“.[10]

Það er nefnilega algengur misskilningur að heimspeki séu einungis það að sitja einn og fá næði til að hugsa í einrúmi, að besta leiðin til að komast að sannleikanum sé upp á eigin spýtur. Gagnrýnin hugsun og heimspeki á sér stað að miklu leyti í samræðu.[11][12] Í samræðum hugsum við upphátt, og komum jafnvel orðum að hugsunum sem við höfum aldrei orðað áður. Þá uppgötvum við oft margt um hvernig við hugsum og tækifæri gefst til að rýna í eigin skoðanir og jafnvel endurskoða þær ef þess þarf. Það er mikilvægt að efla sjálfstæða, skapandi og gagnrýna hugsun í börnum sem og hæfnina til að finna lausnir upp á eigin spýtur. „Menntun á að hafa siðferðilegt inntak“ og að hún verði til þess að við séum meðvituð „um þau gildi sem skipta máli í lífinu.“[13]

Það eru eflaust margar leiðir til að efla siðfræði í frístund og stuðla að góðu siðferði. Ein leið væri að setja á boð og bönn og venja börn á að fylgja reglum og reyna þannig að móta siðlega hlýðna borgara. Önnur leið væri að móta frístundastarfið á lýðræðislegan hátt í samræmi við börnin. Enn önnur leið væri að ræða skipulega um siðferðið og hinar ýmsu reglur og forsendur sem liggja því að baki. Þessi þriðja leið var leiðarljós verkefnisins sem hér birtist en aðferðin var að skapa vettvang þar sem tilveran er tækluð í sameiningu. Grundvöllur er lagður á svokölluðum samverustundum. í upphafi dags, þar sem tekin eru fyrir ýmisleg siðferðileg og önnur heimspekileg málefni, þau sett fram á aðgengilegan hátt og rædd í samræðu á jafningjagrundvelli. Í kjölfar samverustundar er umræðunni haldið gangandi í daglegu starfi til þess að gera siðfræðilega umræðu að vana og fagleg leiðsögn getur átt sér stað um mikilvægi þess að leggja rækt við eigið siðferði.

Þakkir fá Henry Alexander Henrysson sem veitti aðstoð og ráðgjöf við þróun verkefnisins og Hulda Karen Pétursdóttir sem aðstoðaði við uppsetningu á vefsíðu.


Tilvísanir

[1] Látum draumana rætast, Menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030).

[2] Henry Alexander Henrysson. (2012, 18. desember). Hvað er siðferðilega rétt ákvörðun? Vísindavefurinn. & Vilhjálmur Árnason. (2016). Siðfræðikver.

[3] Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir. (2010). Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008.

[4] Sjá t.d. Elsa Haraldsdóttir. (2011). Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í íslenskum skólum & Henry Alexander Henrysson. (2013). Skoðanir, siðferði, samfélag: Enn um gagnrýna hugsun.

[5] Sjá t.d. https://www.althingi.is/altext/146/s/0548.html

[6] Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla – greinasvið 2013. Reykjavík.

[7] Henry Alexander Henrysson og Elsa Haraldsdóttir. (2012). Heimspekikennsla á Íslandi: Væntingar, vonir og veruleiki.

[8] Kolbjörn Ivan Matthíasson. (2019). Heimspeki í leikskólum. Háskóli Íslands. Reykjavík.

[9] Kolbrún Þ. Pálsdóttir. (2017). „Um siðferðis- og skapgerðarmenntun. Á óformlegt nám erindi inn í skóla?“ Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2017 – Menntakvika 2017. Sótt af http://netla.hi.is/serrit/2017/menntakvika_2017/008.pdf.

[10] Kolbrún Þ. Pálsdóttir. (2012). Care, learning and leisure: the organisational identity of after-school centres for six-to nine-year old children in Reykjavík

[11] Henry Alexander Henrysson og Elsa Haraldsdóttir. (2012).

[12] Róbert Jack ræðir við Hrein Pálsson, Brynhildi Sigurðardóttur. Barnaheimspeki er rannsókn á möguleikum. Sótt af https://gagnryninhugsun.hi.is/?p=886.

[13] Júlía Margrét Alexandersdóttir. (2019, 2. mars). Smitaðist af óslökkvandi áhuga á heiminum. Morgunblaðið

Þróunarverkefni

Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com

%d bloggers like this: