Deila / eiga eða Styðja / svíkja

Leikurinn er til þess gerður að hefja samræðu um forsendur réttrar breytni. Er breytni rétt vegna afleiðinganna eða vegna hennar sjálfrar?

Efniviður

3 nammi (eða annað verðmæti)
2 grænir og 2 rauðir hlutir, t.d. Ludo-kallar, eða svört og hvít peð.

Leikurinn

Tveir leikmenn sitja hvor á móti öðrum. Báðir leikmenn hafa rauðan og grænan hlut fyrir framan sig og skerm til að skýla fyrir hinum leikmanninum.

Í miðjunni eru verðmætin (nammi eða “gull” eða hvaðeina). Leikstjórinn útskýrir að þrjú verðmæti eru í pottinum. Leikmenn geta valið að deila verðmætunum (grænn) eða eiga þau sjálf (rauður).
Þegar leikmenn hafa fengið tíma til að hugsa um hvort þeir vilja gera taka þeir ákvörðun með því að setja grænan/rauðan hlut í lokaðan lófa sinn þannig að enginn sér hvaða ákvörðun var tekin.

Á sama tíma opna leikmenn lófa sinn og sýna öllum ákvörðun sína.

Ef báðir leikmenn velja að deila fá þeir báðir 1 verðmæti hvor. Ef annar leikmaður velur að eiga en hinn deila fær sá fyrri 3 verðmæti og sá síðari ekki neitt. Ef báðir leikmenn velja að eiga fær hvorugur leikmannanna neitt.
(Ef litlar sálir eiga í hlut er möguleiki á annarri útfærslu: Báðir deila = 3 á mann, annar vill deila/hinn eiga = 0/2, báðir eiga = báðir 1. Þetta er gert til að koma í veg fyrir grátur og gnístran tanna).

Umræðan snýst um að ræða kosti og galla þess að gera það sem er „rétt“, þrátt fyrir afleiðingar. Gerum við það sem er rétt vegna þess að það er rétt eða vonumst við alltaf til þess að fá eitthvað út úr því?
Er skynsamlegra að velja „eiga“ og eiga þá möguleika á því að uppskera meira? Er ákvörðun réttlætanleg ef hún verður til þess að skapa mikil verðmæti, þó bara fyrir einn? Vegur hamingja „sigurvegarans“ meira en þess sem „tapar“? Er óskynsamlegt að gera hið rétta, þrátt fyrir að eiga möguleika á því að fá ekkert upp úr krafsinu? Eða er alltaf rétt að gera hið rétta?

Hvernig væri það ef allir gerðu eins, ef allir veldu eiga/deila?

Önnur útgáfa

Útfærsla á sama leik, en leikmenn eru tveir einstaklingar grunaður um glæp. Þeir eru staddir í yfirheyrslu og orðið er nokkuð öruggt að þeir frömdu glæpinn. Lögreglan gefur þeim færi á því að sleppa við fangelsisvist, en til þess þurfa þeir að svíkja félaga sinn. Þeir velja þá um að styðja/svíkja í stað deila/eiga. Ef báðir svíkja, fara báðir í fangelsi í 2 ár. Ef bara annar svíkur fer sá ekki í fangelsi en hinn fer í fangelsi í 3 ár. Ef báðir styðja hvorn annan, fara þeir í fangelsi í eitt ár.

Þróunarverkefni

Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com

%d bloggers like this: