Orðatengingar

Hver er tenging milli fíls og bíls?

Tilgangur

Tilgangur leiksins er að átta og æfa sig í því að færa rök fyrir tengingum milli hugtaka. Búast má við því, og jafnvel er hægt að sjá til þess, að umræður skapist um hvort ákveðin hugtök tengjast eða tengjast ekki í kjölfar leiksins.

Leikurinn getur nýst sem upphitun eða staðið einn og sér.

Leikurinn

Leikurinn virkar þannig að allir þáttakendur standa í línu, hálfhring eða hring, en leiðbeinandi stendur fyrir utan. Einn leikmaður byrjar en sá leikmaður má segja hvaða orð sem er. Næsti leikmaður hefur þá 5 sekúndur til að segja eitthvað orð sem tengist fyrra orðinu á einhvern hátt. Tengingin getur nánast verið hver sem er: stafafjöldi er sá sami, orðin ríma, orðin byrja á sama staf, innihalda sama staf, eða hvaða önnur hugrenningatengsl sem er (t.d. fíll- bíll, ský – rigning, krókódíll – hákarl, hundur – köttur).

Stundum er tengingin skýr, en ef það er ekki augljós tenging getur leiðbeinandinn stoppað og beðið um frekari útskýringu. Það sem skiptir máli er að geta rökstutt tengslin, ef leiðbeinandi og leikmenn finnast þau óskýr. Ef ekki tekst að segja orð innan tímarammans, rökstyðja tengslin eða orðin eru talin ekki tengjast er sá leikmaður „úr“ þar til í næsta leik.

Önnur útgáfa

Leikmenn eru enn í hring, og enn byrjar einn á því að segja hvaða orð sem er. Næsti leikmaður á því næst að segja annað orð sem tengist ekki fyrra orðinu. Á meðan að næsti leikmaður hugsar sig um reyna hinir leikmennirnir að finna tengingu á milli orðanna. Ef einhverjum dettur í hug tenging réttir hann upp hönd og segir „Tenging!”. Ef tengingin er samþykkt er sá leikmaðurinn úr sem sagði orðið.

Þróunarverkefni

Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com

%d bloggers like this: