Skip Þeseusar

Skip Þeseusar er einföld hugsanatilraun sem hefur þann tilgang að velta upp spurningum um breytingar.

Hvað gerir hlut að hlut? Ef hlutur tekur miklum breytingum, getum við með sanni sagt að um sama hlut sé að ræða?

Skipið mitt er blátt og með segl og stýri. Ef ég mála skipið rautt og fæ mér mótor og árar, er það enn sama skipið?

Hvað gerir skip að skipi?
Hvað gerir mig að mér?

Efniviður

Í þessu verkefni þarf nokkra liti í tvenns konar lit.

Notið aðeins annan litinn og raðið þeim í skipaform áður en sagan er sögð. Þegar sögunni vindur fram skiptið út litunum út fyrir nýjar í hinum litnum.

(Annar liturinn getur táknað við og hinn málm)

Slíkt sjónrænt fyrirkomulag hjálpar börnunum að ná betur utan um hugmyndina, og veitir þeim tækifæri til að vera virkir þáttakendur í leiknum
Getur líka komið að gagni þegar umræðan færist yfir á manneskjur (sjá neðar).

Kveikjan

Þeseus lagði af stað í leiðangur, á viðarskipi. Förin var háskaför og þeir lentu í óveðri, sæskrímslum, hafmeyjum og ýmsu öðru sem varð til þess að við og við þurfti að gera við bátinn. Ein spýta hér og þar varð fúin eða brotnaði, og í hvert skipti var málmplata sett í staðinn. Eftir hinar ýmsu uppákomur hafði öllum upprunalegu spýtunum verið skipt út fyrir málmplötur: stýrið, mastrið, öll innviði og meira að segja seglunum og reipunum hafði verið skipt út.

Þegar Þeseus kom loks heim eftir langan tíma hljóp hann í faðm konu sinnar og barna. Konan hans tók eftir breytingunum og sagði „Hva, þú hefur komið heim á nýju skipi“. „Nei, sagði Þeseus, þetta er sama skipið, það er bara búið að lagfæra það“. „En“, sagði konan hans „þú lagðir af stað í skipi sem var gert úr við og þú kemur heim á skipi sem er gert úr málmi. Þú ert búinn að skipta út öllu skipinu fyrir nýtt! Þar af leiðandi ertu á nýju skipi“.

Umræður

Hvað finnst ykkur? Kom Þeseus heim á nýju skipi?

Svörin gætu verið á þessa leið:
Já af því að… Það er búið að breyta svo miklu, það eru komnir nýjir hlutir. (Hvenær varð þá skipið að nýju skipi? Var það þegar fyrstu spýtunni var skipt út, eða þegar 51. hlutanum af 100 var skipt út, eða þegar síðustu spýtunni var skipt út? Ef síðustu, hvað gerist þá ef við setjum aftur eina gamla spýtu í, er það þá samt ennþá nýja skipið?)

Nei af því að… Skipið er enn eins í laginu, og því er það sama skipið.
Nei af því að… Þetta er ennþá skipið hans, það heitir það sama, hann fór aldrei úr skipinu.

Ef skipið er ekki það sama… Ímyndið ykkur að viðgerðarmaðurinn sem gerði við skipið, sé búinn að safna saman öllum gömlu hlutum skipsins og hefur byggt annað skip sem er alveg eins og “upprunalega” skipið. Er hann þá á “gamla” skipinu? Hvað segir það um “nýja” skipið? Eru nú til tvö skip sem eru bæði skip Þeseusar?

Þessar umræður geta verið frjóar, mikilvægt er að hver og einn fái að segja frá sínum hugsunum án þess að aðrir séu að grípa fram í, og gott er að veita þeim sem er með hugmynd að koma að breyta litunum sjálf.

En hvað með manneskjur?

Þegar þátttakendum hefur tekist að ná ágætum tökum á hugsunartilrauninni er gott að færa umræðuna yfir á manneskjur og velta fyrir sér hvaða áhrif breytingar hafa á fólk.

Hvað gerir okkur að sömu manneskju í gær og í dag? Líkami okkar og persónuleiki breytist yfir ævina og við ýmist bætum við eða missum eiginleika. Erum við sama manneskjan þegar við erum nýfædd og þegar við erum orðin gömul og búin að missa hár, frumur og tennur og bæta við okkur gervitönnum og gráum hárum? Ef svo er, hvað er það sem gerir okkur að sömu manneskjunni? Er það líkaminn eða persónuleikinn/hugurinn/minnið sem tryggir samsemdina í gegnum tíma (e. personal identity)?

Það er að sjálfsögðu ekkert eitt rétt svar við þessum spurningum og leiðbeinandi þarf að vera í forsvari andsvaranna. Það er mikilvægt að hrósa fyrir rökstudda afstöðu og skýr svör. Svörum sem eru einungis til þess gerð að vera með fíflalæti eru ekki gefinn gaumur. Leitast er við að fá nemendur til að hlusta á hvern annan, bæta við eða gagnrýna og vinna saman að vandamálinu. Hér er markmiðið að átta sig á eigin hugsun, æfa sig í að færa rök fyrir skoðunum sínum, leiða hugann að því hvort samræmi sé í skoðunum okkar og vera tilbúin að hlusta á aðra og mögulega skipta um skoðun.

Möguleg svör geta verið á þessa leið og þá getur leiðbeinandi haft þessi mögulegu andsvör uppi í erminni til þess að halda umræðunni gangandi.
Líkaminn (það ytra) gerir okkur að sömu manneskjunni.

  • Hvað ef hann breytist?
    Við missum frumur, hár, tennur og bætum við okkur gervitönnum og gráum hárum. Ef hann er búinn að skipta út öllum hlutum sínum, er hann þá sami líkaminn?
  • Hvað ef brjálaður vísindamaður færir heila manns yfir í vélmennalíkama?
  • Hvað ef brjálaður vísindamaður skiptir á heila og heila, færir heila úr líkama A yfir í líkama B og öfugt (sjónrænt: gott að nota bangsa eða legókalla)?

Það innra (persónuleikinn/hugurinn/minnið) gerir okkur að sömu manneskjunni.

  • Hvað gerist þá ef/þegar persónuleikinn breytist (t.d. gelgjuskeiðið, áhugamál breytast, skapgerðin…)
  • En hvað gerist þá ef/þegar maður missir minnið?
  • Hvað ef við erum klónuð? Eru þá til tvö eintök af sömu manneskjunni?
This image has an empty alt attribute; its file name is pexels-photo-1490844.jpeg

Auka:

Piparkökumaðurinn: Einu sinni var piparkökumaður sem lenti í því óhappi að einhver borðaði fótinn hans. En sem betur fer kom góðhjartaður einstaklingur og bakaði á hann nýan fót. Stuttu síðar missti hann auga, munn, hendi, en alltaf var nýr hluti bakaður. Eftir allar þessar breytingar, er hann enn sami piparkökumaðurinn?

Bófinn: Einu sinni var bófi sem var alltaf að gera eitthvað af sér. Svo kom vísindamaður sem bauðst til að eyða öllum minningum um allt það slæma sem hann hafði gert, bæði hans eigin og annarra. Nú þegar enginn mundi eftir öllu því slæma sem hann gerði, er hann ennþá bófi?

Þróunarverkefni

Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com

%d bloggers like this: