Dygðasiðfræði

Hvað myndi besta útgáfan af mér gera?

Hvað er dygðasiðfræði?

Dygðasiðfræði Aristótelesar er ein af höfuðsiðfræðikenningum heimspekinnar (ásamt nytjastefnunni og skyldusiðfræði). Ólíkt leiksloka- og skyldusiðfræði einblínir dygðasiðfræðin á skapgerðina, fremur en á gjörðina sjálfa eða afleiðingar hennar. Markmið dygðasiðfræði er að rækta dygðirnar, skapa skapgerð sem vill breyta rétt, og að lokum leiða til farsældar. Hún tekur sér fyrir hendur hvernig manneskja við viljum vera og ættum að vera.

Siðferðis- og skapgerðarmenntun, byggð á grunni dygðasiðfræðinnar virðist eiga mikið erindi í frístundastarf (sjá ítarefni).

Hvað er dygðasiðfræði?

Dygð er góður siðferðilegur eiginleiki. Dygðir miðast við það sem er best að gera, í samræmi við skynsemi og aðstæður hverju sinni. Við þurfum að leggja rækt við dygðir okkar og eru þær því eins konar hæfileiki sem við þjálfum þar sem við verðum betur til þess hæf að taka mið af aðstæðum og velja þá breytni sem er skynsamlegust hverju sinni. Sá sem hefur dygð að bera ber virðingu fyrir sjálfum sér og leitast við að sýna af sér sínar bestu hliðar, en slíkt líferni leiðir til farsældar (hamingju).

Dygð (mannkostur) er íslenskun á gríska orðinu arête sem mætti líka þýða sem bestleiki eða ágæti. Andstæða dygða eru lestir.

Margar útgáfur

Flestir eru sammála um að gott sé betra en vont. Góður matur, gott veður, góð hegðun. Þess vegna reynum við að hegða okkur vel og vera góð við aðra. Þegar við erum smá góð gerum við það sem er gott, en þegar við erum rosa góð gerum við okkar besta. Þá erum við besta útgáfan af okkur sjálfum og sumir segja að það við eigum alltaf að reyna að vera besta útgáfan af okkur sjálfum.

Hlutir geta verið í mismunandi útgáfum, (eins og peðin á myndinni), en manneskjur geta líka verið í mismunandi útgáfum. Hvað á fólk við? Hvað þýðir útgáfa?

Þegar við erum okkar besta útgáfan gerum við það sem er rétt og gerum það vel. Við sýnum okkar bestu hliðar: við erum t.d. umhyggjusöm, hugrökk, þakklát eða þolinmóð. (Hér er gott að spyrja um fleiri dæmi um dygðuga hegðun).

Hér er mikilvægt að gera greinarmun á milli tilfinninga og breytni. Við getum vissulega verið leið, glöð eða reið en hér snýst umræðan um mismunandi breytni. Þegar við erum besta útgáfan af okkur sjálfum er það vegna þess hvernig við breytum, jafnvel óðháð því hvernig okkur líður.

Samskipti

Það er ekki alltaf auðvelt að vita hvað er best að gera. Þess vegna þurfum við að æfa okkur. Við komumst ekki hjá því að eiga samskipti við aðra og þess vegna þurfum við að vanda okkur og gera okkar besta. Þegar við gerum okkar besta í samskiptum líður okkur vel og öðrum líður vel. Stundum ganga samskipti ekki upp, en það er samt mikilvægt að reyna og gera sitt besta.

Ef að samskipti ganga ekki vel eða upp koma ágreiningar, eða við vitum hreinlega ekki hvað við eigum að gera getum við hugsað með okkur: Hvað myndi besta útgáfan af mér gera?

Besta útgáfan vegur og metur aðstæður og breytir skynsamlega í samræmi við þær. Tökum sem dæmi hugrekki. Hugrekki er dæmi um dygð sem fetar milliveg fífldirfsku og hugleysis. Dygð er breytni sem gerir það sem er rétt, miðað við aðstæður. Það væri því fífldirfska (of mikið hugrekki/of lítill ótti) að hlaupa inn í brennandi hús, sem er við það að hrynja en hugleysi (of lítið hugrekki/of mikill ótti) það sem kemur í veg fyrir það. Sá sem hefur dygðina hugrekki til að bera er því sá sem vegur og metur ástæður rétt og breytir skynsamlega í samræmi við þær. Við öðlumst dygðina hugrekki með því að temja okkur hana. Ef við æfum okkur í því að vera hugrökk, verður auðveldara fyrir okkur seinna meira að vera hugrökk (eins og t.d. þegar við æfum á hljóðfæri eða íþrótt). Þegar okkur hefur tekist það njótum við þess að vera hugrökk, og það sama á við um aðrar dygðir á borð við hófsemi, vingjarnleika og réttlæti.

Líður ykkur vel þegar þið gerið ykkar besta? Upplifið þið t.d. sjálfstraust/trú á eigin getu? Er fólk ánægt þegar þið komið vel fram við það? Eru foreldrar ykkar ánægð þegar þið hagið ykkur vel?

Það er ekki hægt að vera bara hugrakkur. Við erum hugrökk þegar við gerum eitthvað hugrakkt, örlát þegar við breytum á örlátan hátt. . (stafli af rauðum og grænum kubbum)

Markmið siðfræðikennslu er ekki að kenna mannasiði heldur að rýna í siðferðið og efla sjálfstæða hugsun.

Umræður

  • Er hægt að vera alltaf besta útgáfan af sjálfum sér? Hvað myndi besta útgáfan af þér gera ef þú t.d. sérð vin þinn (eða aðra) brjóta einhverja reglu? Má brjóta reglu bara af því að aðrir hafa gert það?
  • Gengur alltaf allt upp þegar við gerum okkar besta? Við getum t.d. tekið vel til en einhver annar setur svo allt í rúst, eða við biðjum einhvern afsökunar en sá er enn í fýlu.

Er eitthvað sem ykkur finnst þið geta gert betur og viljið æfa? Þakklæti, heiðarleiki, sanngirni, sjálfstraust, þolinmæði, umburðarlyndi, dugnaður, hugrekki. Hvernig getið þið ræktað þessa eiginleika?

  • Er hægt að gera eitthvað slæmt/rangt en græða samt á því? T.d. þegar við ljúgum, svindlum eða erum löt.
  • Er hægt að gera góða hluti vel og illa? T.d. afsökunarbeiðnir.
  • Ganga hlutirnir stundum upp þó að við gerum ekki okkar besta? Er það skynsamlegt? Væri nóg ef allir væru bara næstbesta útgáfan af sjálfum sér?

Stuttur leikur

Það er ekki hægt að vera bara hugrakkur. Við erum hugrökk þegar við gerum eitthvað hugrakkt, örlát þegar við breytum á örlátan hátt. En hvað þarf ég að gera marga góða hluti til að vera góður?

Byggið tvær manneskjur úr legó-kubbum, annan úr grænum kubbum og hinn úr rauðum. Þessi græni er góði karlinn og rauði er vondi karlinn. Grænir kubbar tákna góðar gjörðir og rauðir slæmar. Græni karlinn er alltaf dygðugur. Hann er góður við alla í kringum sig, hugsar vel um sjálfan sig og umhverfið, og ræktar garðinn sinn af kostgæfni. Hann hefur gert rosalega margt gott og þess vegna er hann allur grænn. En einn daginn er hann óheiðarlegur og svindlar í leik (bætið við rauðum kubb). Bætið við nokkrum rauðum kubbum en hafið hann mest megnis grænan og spyrjið hvort hann sé orðinn slæmur? Ef ekki, ræðið af hverju og bætið svo við öðrum kubb og spyrjið “En núna?”. Spurningin er, hvenær verður hann orðinn slæmur og getur hann orðið góður aftur? (sjá einnig: Skip Þeseusar).

Oft eru krakkar stimplaðir “góðir”, “vondir”, “frekir”, “leiðinlegir”. Þessi leikur tekur til umræðu hvort að “góður” nemandi geti gert “slæma” hluti og öfugt.

Þróunarverkefni

Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com

%d bloggers like this: