
Hvað er nytjastefnan?
Nytjastefnan er afleiðingasiðfræði/leikslokakenning. Þ.e. hún spyr að leikslokum: breytni er siðferðileg rétt ef afleiðingin er sú að hún hefur meiri hamingju en sársauka í för með sér. Við eigum því að gera það sem hámarkar hamingju sem flestra. Réttmæti athafna miðast því af afleiðingunum. Önnur siðfræði, t.d. skyldusiðfræði, segir réttmæti miðast af reglunni sem liggur athöfn að baki og telur réttmæti athafnar ráðast af athöfninni sjálfri. Það er t.d. skylda okkar að ljúga ekki, og þess vegna er rangt að ljúga. Nytjastefnan myndi hins vegar leggja blessun sína á lygi ef hún leiddi til góðra afleiðinga. Markmiðið hér er að draga fram þessa togstreitu.
Það getur reynst okkur erfitt að taka ákvörðun sem bitnar á einhverjum, sér í lagi þegar hún snertir einhvern kærkominn eða felur í sér annars ámælisverða athöfn þó svo að hún geti leitt til sælla afleiðinga: að hámarka hamingju. Lestarvandinn (the trolley problem) er fræg hugsunartilraun sem fær okkur til að leiða hugann að því hvernig við dæmum réttmæti athafnar, (þ.e. af afleiðingum eða af reglunni).
Hér er lestarvandinn settur í sakleysislegri búning í formi sögu um strák sem stendur frammi fyrir svipuðum vanda. Í kjölfar sögunnar leitum við lausna á vandanum og rökstyðjum afstöðu okkar m.t.t. afleiðinga- eða reglusiðfræði.
Leikslokasiðfræði, oft kennd við John Stuart Mill er ein af þremur helstu siðfræðikenningum vestrænnar heimspeki ásamt skyldusiðfræði, og dygðasiðfræði.
Kveikjan
Einu sinni var strákur sem hét Anton. Hann var á gangi og hugsa með sér „Æ, hvað fjölskylda mín var leið í gær þegar ég ákvað að við myndum borða pizzu, en þau vildu borða spagettí. En hvað átti ég að gera? Þau sögðu að ég mætti ráða! Hvað gerði ég rangt og hvernig get ég vitað hvað hefði verið rétt?“ Hann hugsaði sig um vel og lengi og á gangi fann hann töfralampa. Hann nuddaði og nuddaði og út úr honum kom andi. Andinn sagði stráknum að hann fengi að spyrja sig einnar spurningar. Strákurinn hugsaði sig vel um og mundi svo eftir spurningunni sem hann var að velta fyrir sér svo hann spurði: Hvernig get ég vitað hvað er rétt að gera? Andinn sagði: Hafðu þessa reglu í huga: Breyttu ávallt þannig að ákvarðanir þínar leiða af sér meiri hamingju umfram óhamingju! Og svo hvarf hann, PÚFF! Strákurinn hugsaði með sér hvað orð andans þýddu. Þau þýða að maður eigi alltaf að gera það sem að gerir meira gott en slæmt. Eða: það sem lætur sem flestum líða vel! Eftir því sem fleirum líður vel þá er meira af hamingju! Okei frábært! Nú gat strákurinn haldið áfram með daginn sinn, sigri hrósandi með leynilegu anda-regluna sína. Hann hlakkaði til að nota hana í verki!
Næsta dag mætti Anton í frístundaheimilið sitt og fór í perlur. Þar voru fimm krakkar að rífast. Einn vildi fá fjögur kassaspjöld fyrir stóru perlumyndina sína en hin fjögur vildu fá eitt kassaspjald á mann. „Hey, ég veit!“ sagði Anton og lagði fram reglu andans: “Þessi fjögur eiga að fá eitt kassaspjald á mann af því að þá erum við að láta fjórum líða vel fremur en einum”. Þessi eini var ekki par sáttur, en krakkarnir voru samt sammála um að þetta væri sanngjörn og rétt ákvörðun. Anton væri að reyna að gera það besta úr stöðunni. Til þess að láta þessum eina líða betur bauðst Anton til þess að hjálpa honum að finna annað kassaspjald.
Því næst fór Anton í annað val. Þar var frekar kalt, af því að starfsmaðurinn hafði opnað eina gluggann í rýminu til þess að hleypa súrefni inn. Anton byrjaði að leika sér en vinur hans, sem hafði verið veikur bað hann að loka glugganum. Anton spurði því hina krakkana hvort hann mætti ekki loka glugganum? “NEI!“ Sögðu þau. „Okkur er öllum mjög heitt og þess vegna viljum við hafa gluggann opinn“. Anton vissi ekki hvað hann átti að gera. Annars vegar vildu hinir krakkarnir hafa gluggann opinn, en hins vegar var vinur hans búinn að vera veikur og ef glugginn væri opinn yrði hann áreiðanlega enn meira veikur. Hann leiddi því hugann að reglu andans. Hvað myndi andinn gera í þessum aðstæðum? Hann hugsaði að það væri sanngjarnast að glugginn væri lokaður til þess að meirihlutanum liði vel. Hann vildi því leggja hana til, en hann hikaði. Ef hann myndi hafa gluggann opinn myndi vinur hans líklega veikjast enn meira og Anton vildi líka tryggja að honum liði vel…

Umræður
Hvernig er best að leysa þennan vanda? Hvað er það rétta í stöðunni?
Vandinn sem Anton stendur frammi fyrir: Anda-reglan segir að við eigum að hafa gluggann opinn, vegna þess að þá erum við að tryggja hamingju sem flestra. En þá gæti vinurinn veikst og Anton vill ekki bera ábyrgð á því.
- Ber Anton ábyrgð á heilsu vinar síns?
- Er Anton ábyrgur ef hann gerir ekki neitt og vinur hans veikist?
- Ber hann skyldu (í krafti vináttunnar) til þess að standa með og stuðla að hamingju vinar síns?
- Hvað ef að vinur hans vildi gera eitthvað af sér?
- Getur verið að það sé verra fyrir vininn að veikjast en fyrir hina að vera heitt?
- Eiga hinir að taka tillit til vinarins og fórna eigin hagsmunum?
- Væri málum háttað öðruvísi ef vinur hans væri ekki veikur?
- Er munur á afleiðingunum í perludæminu og gluggadæminu?
Togstreita: Reglan um vináttu, og afleiðingarnar (hamingja sem flestra).
Verðmæti í húfi: Hamingja, heilsa, vinaskylda.
Þegar þessi umræða var tekin í Undralandi stóð ekki á svörunum:
„Hinir geta bara farið aðeins út að kæla sig“.
– Hér er hugsunin að vega heilsu þyngra en hin smávægilegu óþægindi að vera örlítið heitt.
„Vinurinn getur fært sig yfir í hinn hluta herbergisins þar sem er hlýrra“ / “… og Anton getur vafið teppi utan um hann.”
– Hér er hugsunin mögulega að hinir krakkarnir eiga líka rétt á því að leika sér frjálst í valinu sínu.
“Vinurinn getur bara skipt um val”.
– Þetta svar er kannski ákveðin lausn, en hún tæklar ekki beint vandamálið heldur sneiðir fram hjá því. Það gefur þó ákveðna vísbendingu um hugsunina að maður beri ábyrgð á sjálfum sér.
Öllum var ljóst að heilsa væri mikilvæg, og reyndu flestir að tryggja að vinurinn yrði ekki veikur. Allir sýndu af sér viðleitni til að láta þeim sem eiga í hlut líða sem best. Engum datt í hug að Anton ætti að segja vini sínum að gera það bara sjálfur, sem sýnir að vinátta felur ákveðna hluti í sér á borð við umhyggju, hjálpsemi og tryggð.
Dæmi til umræðu fyrir starfsfólk:
Dæmi 1: Einn nemandi lætur illum látum og skemmir leik fyrir öðrum nemendum. Kennarinn getur tekið ákvörðun um að reka ólátabelginn út til þess að hinir nemendurnir fái að njóta sín.
Vandinn er hins vegar, að hér þarf að huga að afleiðingunum. Ef ólátabelgurinn bregst mjög illa við refsingunni er kannski ekki ráðlagt að reka hann út. Mögulega liggur eitthvað að baki ólátunum og þá þarf hugsanlega að taka ákvörðun um að að “fórna” hinum börnunum, fresta leiknum og einbeita sér að ólátabelgnum, á kostnað “hamingju” hinna.
Dæmi 2: Meirihlutinn vill horfa á mynd sem er bönnuð börnum, en aðrir eru viðkvæmir og gætu fengið martraðir.
Hér er vandinn hvort þessir “aðrir” eigi að bíta í hið súra epli, eða hvort þurfi að taka tillit til þeirra. Er martaða-ástæðan nógu góð ástæða til þess að velja aðra mynd? Hvernig mynduð þið bregðast við?
Þróunarverkefni
Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com