Skyldusiðfræði

Hvað myndi ég gera ef ég ætti að vera fyrirmynd?

eða

Hvað ef allir gerðu eins?

Skyldusiðfræði Kants dæmir siðferðilegt réttmæti af gjörðinni fremur en afleiðingunni. Ef athöfn er unnin af skyldu er hún talin réttmæt. Skyldan tekur mið af lögmáli um siðlega breytni, þ.e. hlutlægri reglu sem lýtur hreinni skynsemi. Í orðum Kants: „Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú getur á sama tíma viljað að verði að almennu lögmáli“.

Fyrirmynd er einhver sem gerir það sem hún á að gera, frekar en það sem hana langar til að gera. Fyrirmynd gerir það sem henni finnst að aðrir ættu að gera.

Fyrirmyndir

Hvað eru fyrirmyndur? Eigið þið ykkur einhverja fyrirmynd? Hvað er það í fari þeirra sem þið viljið tileinka ykkur? Hvað gera fyrirmyndir til að gera þær að fyrirmyndum?

Hvernig getið þið verið fyrirmyndir?

Er fyrirmynd alltaf besta útgáfan af sjálfum sér? (sjá Besta útgáfan)
Fylgir fyrirmynd alltaf reglunum? (Sumar fyrirmyndir gera það ekki t.d. Hrói Höttur, Mulan, Martin Luther King Jr., Rosa Parks…)

Kveikja

Aðalsteinn var í vandræðum. Konan hans var veik af sérstökum sjúkdómi og það var bara til eitt lyf til þess að lækna hana. Hann fór til lyfjafræðingsins og spurði hvort sá gæti hjálpað honum. „Já,“ sagði lyfjafræðingurinn. „En það mun kosta þig eina milljón af því að það er rosalega dýrt að búa lyfið til, ég hafði mikið fyrir því að finna hráefnin og ég vil fá þann pening til baka sem ég eyddi til þess að búa til lyfið“. „Gott og vel“ sagði Aðalsteinn og taldi peningana sem hann átti. „Ég á bara hálfa milljón, getum við látið það duga?“

 „Æji, það er nú leitt, ég vildi að ég gæti aðstoðað þig, en sjálfur á ég ósköp lítinn pening og hef ekki efni á því að selja lyfið fyrir minna en eina milljón. Bráðum mun ég geta lækkað verðið á lyfinu, en ég veit ekki alveg hvenær það verður“ sagði lyfjafræðingurinn og fann til með Aðalsteini.

Aðalsteinn var örvinglaður, ef hann fyndi ekki lyf myndi konan hans verða fárveik og hugsanlega deyja! Hann hafði ekki tíma til að bíða eftir því að lyfið myndi lækka í verði. Honum datt þó eitt í hug: að brjótast inn og stela lyfinu. Hann hugsaði með sér að þó að það væri rangt að ræna, hefði hann engra kosta völ!

Hvað finnst ykkur að hann ætti að gera?

 • Er réttlætanlegt að Aðalsteinn brjótist inn og steli?
  • Réttlæta afleiðingarnar gjörðina? (Konan hans nær heilsu)
  • Hugsið þið stundum eins og Aðalsteinn hugsaði?
 • Er það sanngjarnt gagnvart lyfjafræðingnum að Aðalsteinn brjótist inn?
 • Er það ósanngjarnt gagnvart konu Aðalsteins að lyfið sé svona dýrt?
  • ef svo er, hver er þá sekur?
 • Er í lagi að brjótast inn ef enginn kemst að því?
  • af hverju/af hverju ekki?

Hvað ætti Aðalsteinn að gera ef hann vildi vera fyrirmynd?

(Ef óþreyja eftir sögulokum grípur mannskapinn er hægt að leika sér að því að semja söguendi saman til að halda umræðunni gangandi.)

Hvernig endar sagan?

 • Hvernig myndi sagan enda ef Aðalsteinn ákveður að brjótast inn?
  • Hann gæti verið handtekinn
  • Hann gæti komist upp með það
   • Hann gæti fengið samviskubit
  • Lyfjafræðingurinn gæti komist að því að Aðalsteinn braust inn
   • Ætti hann að tilkynna það til lögreglu?
 • Hvernig endar sagan fyrir lyfjafræðinginn ef hann ákveður að gefa Aðalsteini lyfið á hálfivirði?
  • Myndi hann fá samviskubit? Er það honum að kenna ef kona Aðalsteins veikist?
  • Ætti lyfjafræðingurinn þá að gefa öðru fólki afslátt í svipuðum aðstæðum (t.d. til þess að vera fyrirmynd)?
   • Er sanngjarnt að ætlast til þess af lyfjafræðingnum?

Stuttar kveikjur

Það er almennt séð bannað að ljúga, en ef að við ljúgum til þess að koma í veg fyrir meiri skaða, er það þá í lagi?

T.d. ef vinur spyr hvort nýja peysan hans sé flott, og þér finnst hún ljót. Áttu að ljúga að honum eða segja honum hvað þér finnst?

T.d. ef morðingi hringir dyrabjöllunni og spyr hvort vinur þinn sé heima, vegna þess að hann hyggst myrða hann. Áttu þá að ljúga, að því gefnu að vinur þinn sé heima?

T.d. ef fjölskylda þín hefur skipulagt óvænta afmælisveislu fyrir móður þína. Móðir þín vill bjóða þér í bíó þetta sama kvöld og spyr hvort þú sért laus. Áttu að ljúga?

Hlýða fyrirmyndir alltaf?

Fyrirmyndir eiga að gera það sem er skynsamlegast, og það sem allir ættu að gera.

En hvað ef að kennari segir nemendum að gera eitthvað óæskilegt? T.d. ef verkefni dagsins er að gera lista af vinum sínum, raða þeim eftir því hver er skemmtilegastur og loks sýna öllum bekknum.

Sumum nemendum kynnni að virðast þetta óþægilegt verkefni, og benda á að sumir nemendur munu eflaust vera á mörgum listum, en aðrir á engum. Kennarinn hlustar ekki og biður nemendur um að gera það sem þeim er sagt!

 • Ættu nemendurnir að hlýða kennaranum eða óhlýðnast?
 • Er það ókurteisi að vera ósammála kennara/foreldri/vin?
 • Er hægt að vera ósammála en samt kurteis?
 • Er munur á því að óhlýðnast kennara/foreldri/vin/lögreglu/ókunnugum?

Þróunarverkefni

Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com

%d bloggers like this: