Umhyggjusiðfræði

Hvernig get ég styrkt vinasambönd mín?

Í stuttu máli snýst umhyggjusiðfræði um aðstæður og sambönd milli viðkomandi aðila. Þar er athyglinni ekki beint að því hvort gjörð sé rétt í hvaða aðstæðum sem er heldur er spurt hvort viðkomandi aðilar hafi tilfinningu fyrir þörfum hvors annars og komi til móts við þær af alúð. Rétt ákvörðun er því sú sem sýnir mesta umhyggju og styrkir sambönd við aðra.
Hér felst æfingin í því að setja sig í spor annarra. Markmiðið er að draga fram skoðanir á því í hverju góð vinátta felst, mikilvægi hennar og ræða leiðir til að stuðla að góðri vináttu. Lykilhugtök: Traust, vinátta, heiðarleiki, fyrirgefning.

Efniviður

Misþykk bönd, t.d. reipi, garn, tannþráður.

Inngangur

Fólk hefur mis sterk bönd sín á milli. Við getum styrkt sambönd okkar með því að sýna hvert öðru umhyggju. Að sama skapi getum við veikt böndin með því að koma illa fram við hvert annað. Eftir því sem böndin styrkjast er erfiðara að slíta þau. Vinasambönd eru sambönd sem eru sterk, en þau geta verið mis sterk.

Hvernig er sterkt vinasamband? Hvaða eiginleikar vináttu eru nauðsynlegir? Eru einhverjir eiginleikar sem eru nægjanlegir?

  • Er sterkt vinasamband samband þar sem vinir t.d.:
    • Virða hvorn annan (þeir taka tillit til hvors annars)
    • Eru jafnir (eru ekki að stjórna)
    • Eru heiðarlegir
    • Treysta hvor öðrum.
    • Þeir eru tilbúnir að fyrirgefa og biðjast fyrirgefningar af alvöru
    • Þeir reyna að leysa ósætti með því að sýna hver öðrum umhyggju og vilja að vinum sínum líði vel.

Kveikja

A og B eru félagar. Þeir eru staddir í frístundaheimilinu sínu og eru að fara að velja fyrsta val dagsins. A segir að hann ætli að velja spil og að hann vilji leika við B. B fer í röðina á undan og er því fyrri til að velja. Hann ákveður að velja spil þar sem hann treystir því að A muni gera það sama. Þegar kemur að A hins vegar, velur hann íþróttir. B verður bæði reiður og sár. A getur ekki skipt í val B og öfugt, þar sem að fullt er í bæði valsvæðin.

Ímyndið ykkur hvernig ykkur myndi líða ef þið væruð í sporum B. Hvernig haldið þið að honum líði? Hvort er bandið líklegra til þess að veikjast eða styrkjast þeirra á milli?

Nokkrir umræðupunktar

Traust

Haldið þið að B treysti A minna núna?

Ábyrgð

Ætti A að biðjast afsökunar? Er það A að kenna að B sé leiður?

Hefur B rétt á því að verða sár og reiður?

Skiptir máli ef B hefur sjálfur gert slíkt áður?

Umhyggja

Hvað getur A gert til þess að láta B líða betur? Hvernig getur A sýnt B umhyggju?

Getur sterkt band þeirra á milli getur verið hvatning til, og jafnvel auðveldað þeim að leysa rifrildið? Sýna vinir hvor öðrum umhyggju með því að reyna að leysa rifrildið?

Skiptir umhyggja máli? Getum við fundið fyrir umhyggju?

Hvernig bregðast góðir vinir almennt við þegar þeir eru ósáttir?

Hvernig get ég sýnt þeim umhyggju sem eru ekki vinir mínir?

Fyrirgefning

Ætti B að fyrirgefa A?

Er munur á því að A hafi viljandi blekkt B og að hann hafi gert það óviljandi (t.d. ef hann gleymdi sér)?

Er nóg að segja fyrirgefðu ef askiptir máli að meina það? Skiptir máli að vilja það?

Hvernig getur maður beðist afsökunar vel/illa?

Á alltaf að fyrirgefa? Eða bara ef hinn gerir það líka (t.d. eftir rifrildi)? Hvers vegna er gott að fyrirgefa?

Smá auka siðferðilegar klípur

Vinur þinn vill velja það val sem þú vel, en þig langar ekkert sérstaklega að leika við hann núna, því þú veist að góðir vinir þurfa ekki alltaf að vera saman. Þú ert hræddur um að ef þú segir honum það gæti hann orðið sár. En þú vilt samt vera góður vinur og góðir vinir eru heiðarlegir. Er hægt að segja honum leiðinlegar fréttir á umhyggjusaman hátt? Þurfa vinir alltaf að vera saman?

Þú veist að það er almennt bannað að ljúga. En ef vinur þinn spyr hvort nýja peysan hans er flott, og þér finnst það ekki, ættir þú að ljúga að honum eða segja sannleikann? Skiptir máli hvernig maður segir hlutina? Getur umhyggja falist í því að gagnrýna vin sinn, t.d. ef hann hefur ranga skoðun eða gerir eitthvað rangt?

Þróunarverkefni

Á þessari heimasíðu má finna afurð þróunarverkefnis sem var unnið á frístundaheimilinu Undralandi í Grandaskóla skólaárið 2019–2020. Markmið verkefnisins er að efla siðfræðilega vídd frístundastarfsins og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Hafið samband við Ellert Björgvin Schram í tölvupósti ellertschram@gmail.com

%d bloggers like this: